Tugþúsundir Dana mótmæltu í dag áætlunum ríkisstjórnarinnar að afnema niður kóngsbænadag, eða Store bededag, sem verið hefur almennur frídagur í landinu allar götur síðan 1686 og er fjórði föstudagur eftir páska.
„Þetta er algjörlega ósanngjörn tillaga,“ sagði Lizette Risgaard, formaður launþegasamtakanna Fagbevægelsens Hovedorganisation, sem skipulagði mótmælin.
Áætlað er að á milli 40 og 50 þúsund mótmælendur komu saman fyrir utan þingið í Kaupmannahöfn. Um 70 rútur voru fengnar til þess að ferja mótmælendur alls staðar af landinu til höfuðborgarinnar.
Ætlunin er að kóngsbænadagur verði á ný almennur vinnudagur. Við þetta aukist skatttekjur ríkissjóðs um 3,2 milljarða danskra króna, jafnvirði tæplega 66,5 milljarða íslenskra, og þeir fjármunir skulu samkvæmt ríkisstjórn landsins ganga í sjóð varnarmála.
Risgaard sagði við AFP-fréttaveituna að ákvörðunin væri „gegn danskri fyrirmynd“. Þá spurði hún hvort að ríkisstjórnin ætli í framhaldinu að afnema sunnudag sem frídag ef ríkissjóð vantar pening.
Mótmælandinn Kurt Frederiksen sagði að peningar sem renna til stríðsrekstur munu aldrei leiða til friðs.