Evrópusambandið ætlar að senda björgunarsveitir til Tyrklands og undirbýr frekari aðstoð þar í landi eftir að stór jarðskjálfti gekk yfir Tyrkland og Sýrland.
„Hópar frá Hollandi og Rúmeníu eru á leiðinni,“ sagði Janez Lenarcic hjá almannavörnum ESB í tísti.
Hann bætti við að Tyrkir hafi óskað eftir aðstoð frá ESB.
Þó nokkrar ríkisstjórnir innan ESB hafa heitið aðstoð vegna skjálftans, þar á meðal ríkisstjórnir Frakklands og Þýskalands.
„Við erum slegin yfir fregnum af jarðskjálftanum við landamæri Tyrklands og Sýrlands,“ sagði Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, á Twitter. „Þýskaland mun að sjálfsögðu senda aðstoð.“
Belgar, Pólverjar, Spánverjar og Finnar segjast einnig tilbúnir til að veita aðstoð.
Jarðskjálftinn, sem var af stærðinni 7,8, átti upptök sín skammt frá tyrknesku borginni Gaziantep, þar sem um tvær milljónir manna búa. Borgin er skammt frá landamærunum að Sýrlandi.