Tulin Akkaya var rétt svo byrjuð að ná áttum eftir að hún vaknaði við einn stærsta jarðskjálfta sem riðið hefur yfir Tyrkland í nærri öld er annar stór skjálfti gekk yfir. Akkaya reyndi því að leita öryggis úti á götu.
Byggingar lágu í rúst í borginni Diyarbakir í suðausturhluta Tyrklands, þar sem fjöldi sýrlenskra flóttamanna býr.
Talið er að yfir 1.500 manns séu látin í Tyrklandi og Sýrlandi. Stærsti skjálftinn mældist 7,8 að stærð og varð klukkan 17 mínútur yfir fjögur í morgun. Að minnsta kosti 50 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið og telja yfirvöld að þeir muni halda áfram næstu daga.
„Ég er svo hrædd. Ég fann fyrir eftirskjálftanum mjög vel af því ég bý á efstu hæð,“ sagði Akkaya við AFP-fréttaveituna og á þar við eftirskjálftann sem var 7,5 að stærð.
„Við hlupum út í skelfingu. Þetta var nánast eins og jarðskjálftinn í morgun. Ég get ekki farið aftur inn í íbúðina mína núna, ég veit ekki hvað gerist næst.“
Rafmagnslaust og gaslaust er nú á svæðinu sem Akkaya býr.