Patríarkinn Kirill, sem er dyggur stuðningsmaður Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta, starfaði fyrir sovésku leyniþjónustuna þegar hann bjó í Sviss á áttunda áratugnum.
Svissnesk dagblöð greina frá þessu og vísa þar í skjöl sem hulunni hefur verið svipt af.
Að sögn blaðanna Sonntagszeitung og Le Matin Dimanche kemur fram í skýrslu svissnesku lögreglunnar að Kirill, sem er núna andlegur leiðtogi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, hafi starfað fyrir KGB.
Kirill bjó í svissnesku borginni Genf snemma á áttunda áratugnum. Opinberlega starfaði hann þar sem fulltrúi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar hjá alkirkjuráðinu (WCC).
Undir dulnefninu „Mikhailov“ átti Kirill að hafa áhrif á alkirkjuráðið.
Rússneska rétttrúnaðarkirkjan hefur neitað að tjá sig um njósnastarfsemi Kirills í Genf og alkirkjuráðið segist engar upplýsingar hafa um málið.