Birtir myndir af leifum loftbelgsins

Skjámynd/Facebook U.S. Fleet Forces Command

Bandaríski sjóherinn birti í dag á Facebook myndir af braki kínverska eftirlitsloftbelgsins sem var skotinn niður á laugardaginn þar sem sjá má hermenn draga inn stóran hluta belgsins úr sjónum fyrir utan Myrtle Beach í Suður Karólínu ríki.

BBC greindi fyrst frá fréttinni.

Í færslunni á Facebook segir að þeir sem sóttu loftbelginn á sunnudaginn var hafi verið hluti sérfræðingateymis flotans í sprengjuvörnum auk landhelgisgæslunnar í samvinnu við flugmálayfirvöld. Nú verður loftbelgurinn rannsakaður til að sjá hann hafi verið ætlaður til njósna.

Sjóherinn sagði að brakið hefði dreifst um Atlantshafið um 11 kílómetra leið og tvö sjóskip, þeirra á meðal eitt með sterkan krana, hefðu verið send á svæðið. Á myndum sjóhersins sést hins vegar að hægt var að draga loftbelginn um borð með handafli.

Kínverjar neita njósnum

Kínverjar hafa borið til baka allar sögur um njósnir og segja loftbelginn hafa farið inn í bandaríska lofthelgi alveg óvart. En við fregnirnar af belgnum í síðustu viku hætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken við fyrirhugaða opinbera heimsókn til Kína um síðustu helgi. 

Talið er að brakið úr loftbelgnum geti hugsanlega gefið innsýn í kínverska eftirlitstækni, en flókið og jafnvel hættulegt geti þó reynst að endurheimta búnað loftbelgsins og þess vegna var þessi sérstaka sprengjusveit sjóhersins send á staðinn. 

Hér fyrir neðan er færsla sjóhersins með fleiri myndum:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka