Björgunarmenn í Tyrklandi og Sýrlandi börðust við nístandi kuldann í dag í kapphlaupi við tímann um að finna fólk á lífi í rústunum eftir jarðskjálftana sem hafa nú þegar kostað 7.100 manns lífið í Tyrklandi og Sýrlandi.
Yfirvöld segja að mannfallið sé nú komið í 5.434 manns í Tyrklandi og í Sýrlandi er sagt að 1.712 manns hafi látist.
Skjálftarnir gengu yfir á svæði sem þegar er illa statt vegna stríðsátaka. Á götunni stóðu þeir sem komust úr hrynandi byggingum í kuldanum þar sem þau brenndu rusl til að reyna að halda á sér hita þar til alþjóðleg aðstoð bærist.
En kraftaverkin hafa líka gerst. Nýfætt barn var dregið lifandi úr rústum í Sýrlandi, enn tengt móður sinni með naflastrengnum, en hún hafði látið lífið á mánudag. „Við heyrðum grát meðan við vorum að grafa,“ sagði Khalil al-Suwadi, ættingi konunnar, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Við hreinsuðum rykið og fundum barnið með naflastrenginn og klipptum á hann og frændi minn fór með hana á sjúkrahús.“
Ungbarnið er ein eftirlifandi ættingi al-Suwadi, en allir aðrir fjölskyldumeðlimir létu lífið í bænum Jindayris.
Skjálftinn, sem var 7,8 að stærð, varð á fyrir sólarupprás á mánudagsmorgunn þegar fólk svaf og nú er talið að áhrif skjálftanna muni hafa áhrif á milljónir manna.
Heilu byggingarnar hrundu og mesta eyðileggingin er nærri miðju skjálftans á milli borganna Gaziantep og Kahramansmaras.
Hrikalegt ástandið og eyðileggingin af völdum skjálftanna varð til þess að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti í dag yfir þriggja mánaða neyðarástandi í tíu héruðum í suðausturhluta landsins.
Tugir þjóða eins og Bandaríkin, Kína og Persaflóaríkin hafa heitið á að leggja hönd á plóginn og leitarsveitir og hjálpargögn eru byrjuð að berast með flugvélum.
Samt sagði fólk á sumum af þeim svæðum sem urðu hvað harðast úti að þeim fannst eins og það væri algjörlega á eigin vegum.
„Ég næ ekki bróður mínum aftur úr rústunum. Ég næ ekki bróðursyni mínum. Líttu í kringum þig hérna. Hér er enginn embættismaður ríkisins, í guðanna bænum,“ sagði Ali Sagiroglu í tyrknesku borginni Kahramanmaras.
„Í tvo daga höfum við ekki séð neinn frá yfirvöldum hérna í kring... Börnin eru að frjósa úr kulda,“ bætti hann við.