Í bænum Jandairis í norður Sýrlandi ríkir skelfilegt ástand eftir jarðskjálfta fyrri nætur.
„Við erum gjörsamlega buguð,“ segir Samer al-Saraqbi grátandi en hann hefur misst tólf ættingja sína, móður sína, föður, systur og alla hennar fjölskyldu. Íbúar bæjarins reyna að bjarga fólki úr rústunum með ekkert nema hendurnar að vopni.
„Við heyrum í þeim, þau eru enn á lífi, en við getum ekki náð þeim út,“ segir Ali Battal íbúi í bænum. „Við höfum kallað til heimsins til að hjálpa okkur í þessu skelfilega ástandi. Öll fjölskylda mín er í rústunum. Synir mínir, dóttir mín og maðurinn hennar – þau eru ennþá grafin í rústunum. Það er enginn til að hjálpa. Við höfum engin tæki eða tól.“
Þeim sem hefur verið bjargað lifandi er reynt að sinna á götum úti eða í bílum því öll sjúkrahús eru yfirfull. „Við biðjum ykkur að hjálpa okkur og gera það strax,“ sagði Majed Nassari annar íbúi bæjarins. „Börn okkar, eiginkonur, og eldri ættingjar eru öll grafin í rústunum.“