„Laugardaginn 4. febrúar, strax eftir að bandarísk yfirvöld skutu niður kínverska loftbelginn var lögð fram beiðni um öruggt símtal milli Lloyd Austins varnarmálaráðherra og Wei Fenghe, varnarmálaráðherra Kína sem var hafnað,“ sagði Pat Ryder hershöfðingi í yfirlýsingu í gær. Hann sagði að áfram yrði leitast við að halda boðleiðum opnum milli landanna.
Kína segir að loftbelgurinn hafi verið óvenjuleg veðurathugunarflugvél sem hafi ekki verið notuð í hernaðarlegum tilgangi en Washington Post hefur lýst honum sem háþróuðu njósnatæki í mikilli hæð.
Eftir að loftbelgurinn hafði farið hægt yfir miðríki Bandaríkjanna yfir nokkrar mikilvægar leynilegar herstöðvar stefndi hann út yfir austurströndina þar sem orrustuflugvél skaut hann niður á laugardag.
Austin og Fenghe funduðu í Kambódíu í nóvember þar leitast var við að minnka spennu milli ríkjanna eftir heimsókn Nancy Pelosi, þáverandi forseta fulltrúadeildar bandaríska þingsins, til Taívan, sem vakti mikla reiði í Kína.
En loftbelgurinn hefur aftur magnað spennuna milli ríkjanna. Á mánudag varði Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, þá ákvörðun að bíða með að láta belginn ganga yfir landið og sagði að varnarmálaráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu að best væri að skjóta hann niður yfir sjó.