Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti til samstöðu og fagnaði auknum hagvexti á meðal verkamannastéttarinnar í stefnuræðu sinni á Bandaríkjaþingi í nótt.
Demókratinn tjáði sig ekkert um hvort hann ætlar að sækjast eftir endurkjöri á næsta ári en þá verður hann orðinn áttræður. „Við skulum klára þessa vinnu,“ sagði hann einungis og átti þar við efnahagsmálin í þágu fjölskyldna í landinu. Hvatti hann þingið til að standa saman þegar kemur að umbótum.
Andstæðingar hans úr röðum repúblikana trufluðu hann umtalsvert á meðan á ræðunni stóð með framíköllum.
Ræðan stóð yfir í 72 mínútur og minntist Biden fyrst á stríðið í Úkraínu eftir tæpan klukkutíma þegar hann hét því að Bandaríkjamenn myndu styðja Úkraínumenn gegn Rússum „eins lengi og þörf krefur“.
Hann sagði einnig að bregðast þyrfti við Kínverjum í hvert skipti sem þeir „ógna fullveldi okkar“, en í síðustu viku skutu Bandaríkjamenn niður kínverskan loftbelg nærri strönd Suður-Karólínu.
Biden sagði að tveimur árum eftir að stuðningsmenn forvera hans í embætti forseta, Donalds Trumps, réðust inn í þinghús Bandaríkjanna stæði lýðræðið í Bandaríkjunum eftir styrkum fótum.
Á meðan á ræðunni stóð brosti Biden stundum og grínaðist en reiddist einnig. Hann lauk ræðu sinni, sem tugir milljóna Bandaríkjamanna fylgdust með í sjónvarpinu, með því að segja að sál þjóðarinnar væri sterk.
Foreldrar Tyre Nichols voru viðstaddir ræðuna á þinginu. Hann lést í byrjun janúar eftir áverka sem hann hlaut við handtöku. Fimm lögreglumenn hafa verið ákærðir fyrir að hafa drepið hann.