Pútín beri ábyrgð á vopninu sem grandaði vélinni

Flugvélarbrakið.
Flugvélarbrakið. AFP/Sem van der Wal

Rannsóknargögn benda til þess að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi ákveðið að útvega flugskeytið sem skaut niður farþegaflugvélina MH17 yfir Úkraínu árið 2014, samkvæmt teymi alþjóðlegra rannsakenda.

Hátt í 300 létu lífið í árásinni og hafa þrír verið sakfelldir í málinu, tveir Rússar og einn Úkraínumaður. 

Saksóknarar tilkynntu í dag að rannsókn málsins yrði hætt þar sem búið væri að rannsaka alla anga málsins. „Sönn­un­ar­gögn­in eru ekki næg til að hægt sé að sækja fleiri til saka,“ sagði hol­lenski sak­sókn­ar­inn Digna van Boetzeal­er á blaðamanna­fundi.

BBC greinir frá.

298 um borð

Boeing 777 vélin var á leið frá Hollandi til Malasíu í júlí árið 2014 þegar henni var grandað yfir Úkraínu með 298 um borð. Hörð átök voru þá á milli úkraínskra hersveita og aðskilnaðarsinna hliðhollum Rússum í Donbass-héraðinu.

Samkvæmt yfirlýsingu frá teymi alþjóðlegra rannsakenda fóru rússnesk stjórnvöld með öll völd yfir aðskilnaðarsinnunum sem stjórnuðu svæðinu á þeim tíma.

Í yfirlýsingunni var m.a. vitnað í hlerað símtal rússneskra embættismanna þar sem fram kom að ákvarðanir um að veita hergögn lægju hjá Rússlandsforsetanum. 

„Það liggja fyrir haldbær sönnunargögn um að beiðni aðskilnaðarsinnanna hafi verið kynnt forsetanum og að hann hafi samþykkt hana,“ segir í yfirlýsingunni.

„Þar að auki hefur forsetinn friðhelgi vegna stöðu hans sem þjóðhöfðingi,“ segir þar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert