Sakar Bandaríkin um skemmdarverk á Nord Stream

AFP/John McDougall

Hvíta húsið hafn­ar al­farið nýrri skýrslu banda­ríska rann­sókn­ar­blaðamanns­ins, Seymour Hersh, sem seg­ir að Banda­ríkja­menn hafi staðið á bak við skemmd­ar­verk á Nord Stream-gas­leiðsl­un­um í fyrra.

Í skýrslu sem Hersh birti sjálf­ur í gær skrif­ar hann að kafar­ar banda­ríska sjó­hers­ins, sem Nor­eg­ur hjálpaði, hafi komið sprengi­efni fyr­ir í leiðsl­un­um sem liggja und­ir Eystra­salti milli Rúss­lands og Þýska­lands í júní síðastliðnum og sprengt þær þrem­ur mánuðum síðar.

„Hreinn skáld­skap­ur“

Talskona þjóðarör­ygg­is­ráðs Hvíta húss­ins, Adrienne Wat­son, lýsti Hersh-skýrsl­unni, sem birt var á síðu hans á vefþjón­ust­unni Su­bstack, sem „hrein­um skáld­skap“. Full­trúi leyniþjón­ust­unn­ar CIA tók und­ir orð Wat­son.

Full­trú­ar norska ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins hafna al­gjör­lega þess­ari til­gátu Hersh og að eiga nokk­urn hlut í mál­inu.

Vest­ur­veld­in kenndu Rússlandi um spreng­ing­arn­ar í sept­em­ber og það jók á reiði gegn Moskvu í kjöl­far inn­rás­ar­inn­ar í Úkraínu.

Enn sem komið er hafa rann­sókn­ir sænskra, danskra og þýskra yf­ir­valda ekki fundið neinn söku­dólg.

Ónefnd­ur heim­ild­armaður

Hersh sagði að ákvörðunin um að sprengja leiðslurn­ar hefði verið tek­in á laun af Joe Biden, for­seta Banda­ríkj­anna, til að stöðva mögu­leika Moskvu á að afla millj­arða doll­ara með jarðgassölu til Evr­ópu.

Banda­ríkja­menn töldu einnig að leiðslurn­ar gæfu Rúss­um póli­tíska yf­ir­burði yfir Þýskalandi og Vest­ur-Evr­ópu sem hægt væri að nota til að veikja skuld­bind­ing­ar þeirra gagn­vart Úkraínu eft­ir að Rúss­ar réðust inn í landið, að sögn Hersh.

Tveim­ur vik­um fyr­ir inn­rás­ina 24. fe­brú­ar, að sögn Hersh, sagði Biden sjálf­ur op­in­ber­lega að Banda­ríkja­menn myndu ekki leyfa að nýja Nord Stream 2-leiðslan yrði opnuð ef Rúss­ar réðust á Úkraínu.

Til­gáta Hersh, þar sem hann vísaði í einn ónefnd­an heim­ild­ar­mann, er að hug­mynd­in hafi fyrst komið upp í des­em­ber 2021 í umræðum meðal helstu þjóðarör­ygg­is­ráðgjafa Bidens um hvernig bregðast ætti við vænt­an­legri inn­rás Rússa í Úkraínu.

Sprengt með fjar­stýr­ingu

CIA hafi síðan þróað áætl­un­ina og í skjóli NATO-æf­inga í júní 2022 hafi kafar­ar banda­ríska sjó­hers­ins, með hjálp Nor­egs, komið sprengi­efni fyr­ir á leiðsl­un­um sem hægt var að sprengja með fjar­stýr­ingu, að sögn Hersh.

Vest­ur­veld­in hafa haldið áfram að benda á Rússa sem söku­dólga og Moskvu­menn hafa sakað Banda­ríkja­menn og Breta um skemmd­ar­verk­in.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert