Erdogan gengst við seinagangi

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti játaði í dag að björgunaraðgerðir þarlendra stjórnvalda eftir jarðskjálftann þar og í Sýrlandi á mánudaginn gengju ekki eins hratt fyrir sig og vonir hefðu staðið til.

Forsetinn hefur sætt töluverðri gagnrýni almennings á hamfarasvæðinu fyrir fámennt björgunarlið fyrstu dagana og ónóga hjálp fyrir þá sem lifðu og eru nú margir á vergangi kringum rústir heimila sinna og annarra en af þeim 22.000, sem hingað til er vitað til að hafi látist í skjálftanum, eru 19.000 í Tyrklandi.

Áður hafði forsetinn viðurkennt að viðbrögðum stjórnvalda hefði verið ábótavant en í dag bætti hann í og sagði að björgunaraðgerðir hefðu mátt vera hraðvirkari.

141.000 björgunarmenn

„Fjöldi laskaðra bygginga var slíkur að því miður tókst okkur ekki að hraða inngripi okkar eins mikið og við hefðum óskað,“ sagði Erdogan í heimsókn til borgarinnar Adiyaman í suðurhluta landsins í dag.

Við þessa yfirlýsingu bætti hann því að nú hefði „ef til vill fjölmennasta leitar- og björgunarhópi heims“ verið komið saman þar sem alls 141.000 björgunarmenn væru að störfum í tíu héruðum.

Notaði Erdogan tækifærið enn fremur til að vega að pólitískum andstæðingum sínum fyrir forseta- og þingkosningar snemmsumars og gagnrýndi „tækifærissinna sem vilja notfæra sér þessar þjáningar til að skara eldi að eigin köku“.

Recep Tayyip Erdogan forseti heimsækir borgina Kahramanmaras í Suðaustur-Tyrklandi á …
Recep Tayyip Erdogan forseti heimsækir borgina Kahramanmaras í Suðaustur-Tyrklandi á miðvikudaginn. AFP/Adem Altan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert