Móður og nýfæddu barni bjargað

Svissneskir viðbragðsaðilar að störfum í borginni Antakya í tyrkneska héraðinu …
Svissneskir viðbragðsaðilar að störfum í borginni Antakya í tyrkneska héraðinu Hatay. AFP/Michael Fichter/FDFA

Móður og nýfæddu barni hennar hefur verið bjargað úr húsarústum í Tyrklandi, um 90 klukkustundum eftir að fyrsti jarðskjálftinn gekk yfir landið og Sýrland á mánudaginn.

Tíu daga drengur að nafni Yagiz fannst í rústum byggingar í héraðinu Hatay í suðurhluta landsins, að sögn BBC.

AFP

Myndir hafa birst af því þegar barnið var flutt úr rústunum í nótt og lýsa fjölmiðlar þessu sem kraftaverki, enda fjórir dagar liðnir frá hamförunum og mikill kuldi að nóttu til.

Leit heldur áfram í rústum að eftirlifendum en vonir um að finna fólk á lífi minnka með hverri mínútunni.

Yagiz var fluttur á sjúkrahús þar sem hlúð verður að honum. Móðir hans var flutt á brott á sjúkrabörum. Engar frekari upplýsingar hafa borist um heilsu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert