Rukkuð um 600 þúsund fyrir tvo kaffibolla

mbl.is/Foodandwine.com

Par frá Oklahoma hefur líklega fengið vægan koffíntremma eftir að þau voru rukkuð um sem samsvarar ríflega sex hundruð þúsund krónum fyrir tvo kaffibolla á Starbucks-kaffihúsi í Tulsa.

Jesse O'Dell fór í byrjun janúar í hefðbundinn kaffirúnt og keypti einn ískaffi fyrir Deedee eiginkonuna sína og Frappuchino fyrir sjálfan sig fyrir rúma tíu dollara, sem mörgum þykir alveg nógu dýrt eitt og sér. Þau gerðu sér þó ekki grein fyrir nákvæmlega hversu dýr sopinn var fyrr en nokkrum dögum seinna, þegar eiginkonan hugðist greiða með sama korti, en fékk þá synjun.

Þegar hjónin fóru að grafast fyrir um hvað gæti valdið, kom í ljós að ofan á reikninginn fyrir kaffinu hefði verið bætt við litlum 4.444 dollurum í þjórfé, sem jafngildir um 623.000 kr.

Jesse O'Dell  sagði við fjölmiðla vestra að yfirmenn staðarins hefðu sagt þetta hafa gerst vegna villu í kerfinu, en talsmaður fyrirtækisins sagði hinsvegar að líklega hefði maðurinn sjálfur slegið þessa upphæð inn fyrir slysni.

Fyrirtækið bauðst þó til að endurgreiða þjórféð og sendi tvær ávísanir fyrir upphæðinni, en þegar hjónin hugðust innleysa þær reyndust þær vera gúmmítékkar.

Talsmaður Starbucks sagði í frétt NY Post að það hefði verið vegna stafsetningarvillu, og búið væri að senda hjónunum nýjar ávísanir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert