Lögreglan í Washington í Bandaríkjunum hefur handtekið karlmann á þrítugsaldri sem er grunaður um að hafa ráðist á Angie Craig, þingkonu Demókrataflokksins, í lyftu í fjölbýlishúsinu sem hún á heima í, í gærmorgun.
Kendrick Hamlin, maðurinn sem liggur undir grun, er sakaður um að hafa kýlt þingkonuna og gripið um háls hennar.
Craig er sögð hafa veitt árásarmanninum mótspyrnu m.a. með því að hella heitu kaffi yfir hann, að því er fram kemur í lögregluskýrslunni. BBC greinir frá.
Nick Coe, starfsmannastjóri Craig, segir þingkonuna vera með marbletti eftir árásina en annars vegar sé líkamlega heilsan í lagi.
Maðurinn réðst á Craig laust eftir klukkan sjö að morgni til að staðartíma, að sögn lögreglu. Craig hringdi sjálf á neyðarlínuna en árásarmaðurinn flúði vettvang.
Í lögregluskýrslunni þar sem Craig lýsir aðdraganda árásarinnar kemur fram að maðurinn hafi verið með óráði í anddyri byggingarinnar og mögulega undir áhrifum einhvers konar efna um morguninn.
Hann hafi síðar fylgt henni inn í lyftuna og eftir að hún bauð honum góðan morgunn byrjaði maðurinn að gera armbeygjur upp úr þurru.
Síðar hafi maðurinn kýlt hana í andlitið og gripið utan um hálsinn á henni. Hún varðist með því að hella heitu kaffi yfir hann.