Þúsundir manna hafa boðist til þess að ættleiða nýfædda stúlku sem fannst undir rústum byggingar í norðvesturhluta Sýrlands eftir jarðskjálftann sem átti upptök sín í Tyrklandi.
Þegar henni var bjargað, var Aya, sem þýðir kraftaverk á arabísku, enn tengd móður sinni með naflastrengnum.
Móðir hennar, faðir og öll fjögur systkini hennar fórust í sýrlenska bænum Jindayris í jarðskjálftanum. Aya er á sjúkrahúsi.
„Hún kom á mánudaginn í slæmu ásigkomulagi. Hún var með áverka, skrámur, var kalt og gat varla andað,“ sagði barnalæknirinn Hani Marouf sem annaðist hana.
Ástand hennar er stöðugt, að sögn BBC.
Myndband af björgun hennar fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla. Þar hafa þúsundir óskað eftir meiri upplýsingum til að þeir geti ættleitt hana. „Mig langar að ættleiða hana og veita henni gott líf,“ sagði ein manneskja.
Fréttaþulur í Kúveit sagði: „Ég er tilbúinn til að annast og ættleiða þetta barn...ef lögin leyfa það.“