Borgarstjóri segir af sér vegna framhjáhalds

John Tory, fyrrverandi borgarstjóri Toronto.
John Tory, fyrrverandi borgarstjóri Toronto. Ljósmynd/Alex Guibord

Borgarstjórinn í Toronto í Kanada hefur sagt af sér eftir að upp komst um framhjáhald hans, en hann hefur átt í ástarsambandi við samstarfskonu sína, eða réttara sagt undirmann sinn. 

„Á tímum heimsafaraldursins þróaðist samband milli mín og starfsmanns á skrifstofu minni, sem var þess eðlis að það samræmdist með engu móti þeim kröfum sem ég geri til mín sem borgarstjóra, og sem fjölskyldumanns,“ sagði borgarstjórinn John Tory á blaðamannafundi í dag. 

„Þar af leiðandi hef ég tekið ákvörðun um að stíga til hliðar sem borgarstjóri, svo ég geti tekið tíma hugsa minn gang og vinna til baka traust fjölskyldu minnar.“

Tory tilkynnti um þessa ákvörðun sína, klukkustund eftir að fjölmiðillinn Toronto Star, greindi ítarlega frá margra mánaða löngu sambandi hans og hjákonu hans, sem var jafnframt starfsmaður á skrifstofu borgarstjóra. 

Konan sem John Tory hélt við er 31 árs gömul, en sjálfur er Tory 68 ára gamall. Lýsti Tory því meðal annars yfir að samband þeirra hafi borið vott um dómgreindarbrest af hans hálfu. 

Jennifer McKelvie tekur við embætti borgarstjóra í millitíðinni, þar til nýr borgarstjóri verður kosinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert