Horfið hefur verið frá þeim áformum að selja á uppboði Star Wars-tengda muni sem voru í eigu Peters Mayhews heitins, að beiðni ekkju Mayhews.
Mayhew lést árið 2019 en hann fór með hlutverk Chewbacca í upprunalegu Star Wars myndunum og allt til ársins 2015.
Þegar Mayhew og Angie kona hans seldu hús sitt í Keighley í Englandi fyrir 25 árum síðan skildu þau meðal annars eftir minnisblöð og handrit frá upprunalegu Star Wars myndinni og aðra muni tengda Stjörnustríðsheiminum.
Næstu íbúar hússins fundu munina og fóru með þá á svokallað uppboðshús fyrir stuttu. Angie segir eiginmann sinn hafa tekið það nærri sér að þurfa að skilja þessa muni eftir þegar þau fluttu.
Talsmenn minningarsjóðs Mayhews töluðu við uppboðshaldarann, Angus Ashworth og gerðu honum grein fyrir því að það væri ósk Angie og fjölskyldu hennar að munum yrði skilað til þeirra.
Ashwoth segir að hinir nýju eigendur munanna vilji uppfylla óskir fjölskyldu Mayhews og ætli sér að skila mununum.