Maður á áttræðisaldri liggur undir grun lögreglu í Þrándheimi í Noregi um að hafa myrt konu á sextugsaldri og mann á þrítugsaldri sem hann tengdist fjölskylduböndum. Öll þrjú fundust látin í íbúð í Singsaker þar í borginni um klukkan 21 á fimmtudaginn að norskum tíma, 20 að íslenskum.
Að sögn Anne Haave, ákæruvaldsfulltrúa lögreglunnar í Þrándheimi, var það vinur eins hinna látnu sem fann líkin. Hafði hann þá ekki náð sambandi við viðkomandi um tíma, fór á staðinn til að grennslast fyrir og fann fólkið þar.
Leiddi krufning í gær í ljós að fólkið lést líklega síðdegis á miðvikudag eða á miðvikudagskvöldið og biðlar lögregla til nágranna að gefa sig fram hafi þeir orðið einhvers varir á miðvikudaginn sem hugsanlega gæti tengst ódæðinu.
Thomas Berg, annar fulltrúi ákæruvalds hjá lögreglu, tjáir norska dagblaðinu VG að rannsókn tæknideildar lögreglunnar á staðnum hafi fljótlega leitt í ljós ummerki sem urðu til þess að grunur féll á manninn sem talið er að hafi myrt konuna og hinn manninn áður en hann stytti sjálfum sér aldur. Greindi lögregla frá þessu í fréttatilkynningu í dag.
Enn sem komið er vill lögregla ekki greina frá fjölskyldutengslum hinna látnu né gefa út nokkrar kenningar um hvað búið hafi að baki drápunum. Berg segir lögreglu hafa lagt hald á nokkra hluti á vettvangi en greinir ekki frá því hvort drápsvopnið sé þar á meðal eða hvers konar vopni hafi verið beitt.
VG greinir frá því að lögregla hafi heimsótt aðra íbúð í Þrándheimi í tengslum við rannsókn málsins og innsiglað þá íbúð vegna rannsóknarhagsmuna en vitað er að hin látnu bjuggu ekki öll á sama stað.
Aðstandendum hinna látnu hefur verið skipaður réttargæslulögmaður að sögn lögreglu.