Hluturinn sem skotinn var niður í kvöld hafði verið á ratsjá varnamálaráðuneytis Bandaríkjanna í dag og í gær. Þannig er um að ræða sama hlut og varð til þess að loka þurfti lofthelgi yfir Montana í nótt að íslenskum tíma og Michigan-vatni fyrr í kvöld.
Staðfest hefur verið að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipaði að hluturinn skyldi skotinn niður, „til þess að gæta fyllstu varúðar“.
Hlutnum er lýst sem átthyrndum með hangandi áföstum þráðum. Var hann ekki talinn ógna öryggi á jörðu niðri, en til þess fallinn að ógna flugöryggi.
Um er að ræða þriðja hlutinn sem skotinn hefur verið niður á undanförnum þremur dögum, en í þetta skipti var hluturinn í helmingi lægri lofthæð en þeir fyrri, eða í um 20 þúsund feta hæð eða 6.100 metrum yfir sjávarmáli.
Í slíkri hæð getur hlutur sem þessi auðveldlega stefnt flugöryggi innanlandsflugvéla í hættu.
Dan Lamothe, blaðamaður Washington Post, greinir frá þessu á Twitter og hefur upplýsingarnar eftir háttsettum embættismanni.
Reuters hefur eftir fulltrúum Hvíta hússins að hlutirnir sem skotnir hafa verið niður um helgina séu ólíkir þeim hlut sem fyrst var skotinn niður, og talinn var njósnabelgur frá Kína, að því leyti að þessir hlutir væru töluvert minni í sniðum.
Í tilkynningu frá Pentagon kemur fram að herþotur af gerðinni F-16 hafi verið notaðar til þess að skjóta niður hlutinn.
Var sérstaklega gætt að því að aðgerðirnar færu fram á stað þar sem ekki væri hætta á að brak úr hlutnum ylli skaða þegar það félli til jarðar. Að auki þurfti að huga að því að það yrði mögulegt að finna brakið og safna því saman, til greiningar.
Engar vísbendingar hafa borist yfirvöldum sem benda til þess að nokkurn óbreyttan borgara hafi sakað við þessar aðgerðir. Næsta verk yfirvalda verður að safna brakinu saman og greina hvers kyns hlutur þetta var.