Tugþúsundir heimila á Nýja-Sjálandi eru nú án rafmagns og hundruðum flugferða hefur verið aflýst vegna ofsaveðurs sem geisar í norðurhluta landsins og hefur neyðarástandi verið lýst yfir á svæði þar sem eru heimili um þriðjungs rúmlega fimm milljóna íbúa landsins.
Nýr forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Chris Hipkins, var meðal strandaglópa á flugvellinum í Auckland þegar aflýsa þurfti öllu flugi þar vegna veðurhamsins. Hvatti hann landa sína á blaðamannafundi, sem hann hélt, til að gæta að sér og halda sig innandyra væri þess nokkur kostur. „Þetta á eftir að versna áður en það skánar,“ sagði Hipkins.
Kvað hann ríkisstjórnina hafa íhugað að lýsa yfir allsherjarneyðarástandi í landinu, sem aðeins hefur tvisvar sinnum gerst áður, en frá því hefði verið fallið. Hins vegar lýsti stjórnin því yfir að hún hefði veitt 11,5 milljónum nýsjálenskra dala, andvirði rúmlega milljarðs íslenskra króna, til björgunar- og neyðaraðgerða vegna illviðrisins.
Að sögn Roger Ball, formanns almannavarna Nýja-Sjálands, voru 58.000 manns án rafmagns á heimilum sínum síðdegis í dag að nýsjálenskum tíma. Ekki er hægt að senda mannskap til viðgerða á dreifikerfi raforku eins og er vegna veðurs svo rafmagnsleysið mun vara eitthvað áfram.
Ekki eru nema nokkrar vikur síðan fjórir létust og þúsundir þurftu að yfirgefa heimili sín í Auckland vegna mikilla flóða þar í borginni. „Margir hafa ekki getað unnað sér hvíldar,“ sagði Hipkins forsætisráðherra og Wayne Brown, borgarstjóri Auckland, kvað næsta sólarhringinn verða áskorun.