Beindu leysigeisla að varðskipi

Áhöfn kínverska skipsins beindi sterkum leysigeisla að filippseyska varðskipinu sem …
Áhöfn kínverska skipsins beindi sterkum leysigeisla að filippseyska varðskipinu sem varð að lokum að snúa frá. Ljósmynd/Landhelgisgæsla Filippseyja

Landhelgisgæsla Filippseyja sakar Kínverja um þá háttsemi að beina ægisterkum grænum leysigeisla að áhöfn skips gæslunnar sem 6. febrúar var á leið að hinu umdeilda Ayungin-rifi, eða the Second Thomas Shoal eins og það heitir einnig, í Suður-Kínahafi með þeim afleiðingum að áhöfnin neyddist til að snúa skipi sínu og halda á brott.

Telja Filippseyingar til réttar yfir hafsvæðinu sem þeir segja hluta af Vestur-Filippseyjahafi en kínversk stjórnvöld eru á öðru máli og hafa þarlend skip meðal annars beitt öflugum vatnsbyssum til að fæla filippseyska sjófara frá rifinu. Auk leysigeislans segir áhöfn filippseyska varðskipsins kínverska skipið hafa siglt hættulega nærri og verið í tæplega 140 metra fjarlægð er styst varð.

Dómsúrskurður árið 2016

Breska ríkisútvarpið BBC fjallar um málið en hefur engin svör fengið við fyrirspurnum sínum til ríkjanna tveggja.

Alþjóðagerðardómurinn í Haag úrskurðaði árið 2016 að kröfur Kínverja um yfirráð á svæðinu ættu sér engin sagnfræðileg rök en það voru filippseysk yfirvöld sem fóru með málið þangað. Engu framkvæmdarvaldi er þó til að dreifa til að framfylgja úrskurðinum og hafa Kínverjar byggt yfir einhvern hluta rifsins gegn mótmælum frá Víetnam, Malasíu, Brúnei og Taívan.

Í júní í fyrra beindi kínverskt herskip bláum blikkljósum að öðru landhelgisgæsluskipi Filippseyinga og hálfu ári áður sökuðu Ástralar Kínverja um að beina leysigeisla að ástralskri herflugvél sem var á flugi norður af Ástralíu.

Eurasian Times

BBC

BBCII (ástralska flugvélin)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert