Kostnaður Evrópuríkja til þess að hlífa heimilum og fyrirtækjum frá vaxandi orkukostnaði vegna orkukrísu sem nú ríkir í álfunni nálgast 800 milljarða evra. Það eru um 125,4 billjónir íslenskra króna.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Bruegel-hugveitunnar en upphæðin hefur hækkað úr 706 milljörðum evra frá því í nóvember síðastliðnum upp í 792 milljarða evra. Þá hefur hugveitan hvatt Evrópuríki til þess að nota fjármagn sitt á hnitmiðaðri máta. Reuters greinir frá.
Í umfjöllun miðilsins kemur fram að fjármunirnir hafi að mestu ekki verið notaðir á hnitmiðaðan máta til þess að sporna gegn kostnaðinum. Fremur en að ráðast beint að rót vandans hafi peningurinn verið settur í að lækka þær fjárhæðir sem neytendur þurfi að greiða til dæmis með orkukostnaðarþökum og skattaafslætti á eldsneyti.
Samkvæmt könnun Bruegel hafa ríki Evrópusambandsins eyrnamerkt eða útdeilt 681 milljörðum evra eða 106,7 billjónum króna síðan orkukrísan hófst þegar Rússar skrúfuðu að mestu fyrir gasið sem flæddi frá landinu til Evrópu.
Við þá upphæð bætist kostnaður Bretlands sem nemur 103 milljörðum evra. Stærstan hluta heildarupphæðarinnar bera Þjóðverjar eða um 270 milljarða evra sem jafngildir um 42,3 billjónum íslenskra króna.