Þrír nemendur við grunnskóla í borginni Petropavlovsk í Kasakstan eru sárir eftir að grímukæddur nemandi í níunda bekk réðst að þeim í morgun vopnaður öxi og hníf. Voru tveir þeirra fluttir á sjúkrahús með stungusár en gert að sárum hins þriðja á vettvangi þar sem þau voru ekki alvarleg.
Eftir því sem Nazir Zhashibekov, deildarstjóri við skólann, segir fréttastofunni Kazinform mætti nemandinn í skólann með bakpoka eða skólatösku en ekki er framkvæmd öryggisleit á nemendum við mætingu. Hann fór svo inn á salerni og kom þaðan út grímuklæddur með vopn sín á lofti og réðst til atlögu.
Lögregla kom fljótlega á vettvang og hafði hendur í hári árásarmannsins og er rannsókn á atvikinu nú hafin að sögn saksóknara. Árásarmaðurinn er grunaður um tilraun til manndráps.