Lögreglan í borginni East Lansing í Michigan ríki í Bandaríkjunum hefur opinberað nafn mannsins sem framdi skotárás í ríkisháskóla Michigan í nótt. Skólahald hefur verið blásið af þar til á mánudag.
Árásin var framin rétt eftir klukkan eitt í nótt á íslenskum tíma og voru þrír nemendur háskólans skotnir til bana. Þar að auki særðust fimm. Ekki er vitað hvað lá að baki árásinni en maðurinn, sem var 43 ára og bar nafnið Anthony Wayne McRae, var ekki nemandi skólans. Hann er sagður hafa skotið sjálfan sig til bana eftir að hafa mætt lögreglu.
Árásin fór fram á tveimur stöðum á háskólasvæðinu, nærri félagsfræðibyggingunni Berkey Hall og samkomustað nemenda sem er stutt frá.
Þessu greinir Washington Post frá.
Alríkislögreglan var kölluð til vegna árásarinnar og hefur skólahaldi háskólans auk annarra skóla í kring verið aflýst. Um það bil fjögur þúsund börn ganga í skóla á svæðinu nærri háskólanum.
Fjögur af þeim fimm sem særðust hafa þurft að gangast undir aðgerð eftir árásina. Nöfn þeirra sem létust verða opinberuð á morgun.
Í SMS-skilaboðum sem bárust nemendum og tilkynntu þeim að skotárás væri hafin á háskólasvæðinu, var þeim sagt að flýja, fela sig eða berjast ef allt annað brygðist.
Nemandi sem var inni í skólastofu sem árásarmaðurinn réðst inn í lýsti atburðarásinni í samtali við CNN. Hún segir skólafélaga sína hafa brotið glugga eftir að skotum hafði verið hleypt af til þess að koma fólki út og í öruggt skjól.
Lögreglan á svæðinu þakkar vel vakandi borgarbúa fyrir það að árásarmaðurinn hafi fundist fljótt. Lögreglan fékk ábendingu um staðsetningu mannsins stuttu eftir að myndir úr eftirlitsmyndavélum höfðu verið birtar.
Engar kennslustundir munu fara fram í skólanum þangað til á mánudag og verður lítil starfsemi á háskólasvæðinu næstu tvo daga.
Á síðustu árum hafa þó nokkrar skotárásir í Bandaríkjunum fengið mikla athygli, þar á meðal skotárásin í Uvalde í Texas sem framin var í fyrra og skotárásin í Parkland í Flórída árið 2018. Skotárásin í Parkland var framin þann fjórtánda febrúar og því voru nærri fimm ár liðin frá árásinni þegar sú í Michigan var framin í gær.
Mikill fjöldi skotárása er framinn ár hvert í Bandaríkjunum en það sem af er ári eru þær 67 talsins. Greint er frá því að ekki hafi fleiri skotárásir verið framdar svo snemma árs þar í landi frá því að minnsta kosti árið 2013.