Óþekkti hluturinn lítill málmbelgur

Forseti Bandaríkjanna og forsætisráðherra Kanada áttu fund í kjölfar þess …
Forseti Bandaríkjanna og forsætisráðherra Kanada áttu fund í kjölfar þess að hluturinn var skotinn niður. AFP

Óþekkti hluturinn sem skotinn var niður yfir Kanada á laugardag virðist hafa verið lítill málmbelgur með áfestum farmi að neðan, að því er fram kemur í minnisblaði bandaríska varnarmálaráðuneytisins. CNN greinir frá.

Þar segir að belgurinn hafi svifið yfir viðkvæm svæði áður en hann hafi verið skotinn niður. Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada kvaðst sjálf­ur hafa fyr­ir­skipað að hlut­ur­inn yrði skot­inn niður.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að hluturinn sem var skotinn niður yfir Huron-vatni í Michigan í Bandaríkjunum á sunnudag hafi fallið hægt til jarðar eftir að hafa verið skotinn niður.

Mikill þrýstingur

Upplýsingarnar í minnisblaðinu hafa verið gerðar opinberar í kjölfar mikils þrýstings frá þingmönnum sem hafa farið fram á frekari upplýsingar um hvers vegna ríkisstjórn Joes Bidens hafi ákveðið að skjóta niður þrjá óþekkta hluti á þremur dögum.

„Þessir hlutir voru ekki mjög líkir og voru mun minni en kínverski loftbelgurinn og við munum ekki gera almennilega grein fyrir þeim fyrr en við höfum fundið brakið, sem við erum að vinna að,“ sagði talsmaður þjóðaröryggisráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka