Óþekktu hlutirnir þrír ófundnir

John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir ekkert benda til þess …
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir ekkert benda til þess að hlutirnir tengist kínverska loftbelgnum. AFP

Bandarísk stjórnvöld telja ekkert benda til þess að þrír óþekktir hlutir, sem hafa verið skotnir niður í mánuðinum, hafi einhver tengsl við Kína eða njósnaaðgerðir annarra ríkja. Erfitt verður að finna brak þeirra, að sögn bandarískra stjórnvalda.

„Bandarísk stjórnvöld hafa ekki enn séð neitt sem bendir til þess að þrír hlutir tengist kínverska njósnabelgnum eða utanaðkomandi gagnaöflun,“ sagði John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag.

Mögulega engin ógn

Tveir óþekktir hlutir voru skotnir niður í lofthelgi Bandaríkjanna og einn í lofhelgi Kanada.

Kirby sagði að hlutirnir þrír hefðu getað verið blöðrur sem tengdust einkaaðilum, og hefðu verið á reiki í rannsóknar- eða viðskiptalegum tilgangi. Því gæti vel verið að engin ógn hafi stafað af hlutunum. 

Erfitt að komast að hlutunum

„Þetta gæti verið leiðandi skýring,“ sagði hann en gaf þó ekkert nánara upp í þeim efnum. Þó ítrekaði hann að Kína haldi uppi og fjármagni umfangsmiklar njósnaaðgerðir með njósnabelgjum í mikilli hæð, í þeim tilgangi að njósna um bandarísk stjórnvöld og önnur ríki.

Kínversk stjórnvöld hafa neitað þessum ásökunum og segja loftbelginn hafa verið notaðan til veðurathugana. Bandarísk stjórnvvöld segja að erfitt sé að finna og staðsetja þrjá óþekktu hlutina sem skotnir voru niður nýverið, vegna erfiðra veðurfarslegra og landfræðilegra aðstæðna.

„Við höfum komist að því að það gæti tekið tíma að ná í brakið. Við höfum ekki fundið hlutina enn þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka