Berlusconi sýknaður af ákæru

Silvio Berlusconi situr enn á ítalska þinginu.
Silvio Berlusconi situr enn á ítalska þinginu. AFP/Alberto Pizzoli

Fjölmiðlamógúllinn og fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa borgað ungstirnum fyrir að þegja og ljúga um hvað fór fram í alræmdu „bunga bunga“ veislum forsætisráðherrans fyrrverandi.

Berlusconi hefur áður fengið á sig ákærur fyrir að hafa mútað fólki fyrir að þegja, en hann hefur nýlega verið sýknaður í tveimur öðrum slíkum málum.

Allt snýst þetta um að hann eigi að hafa borgað fyrir þögn gesta í alræmdum „bunga bunga“ svallveislum, sem Berlusconi hefur þó alltaf haldið fram að hafi bara verið fín kvöldverðarboð.

Mikilvægar afleiðingar

Sýknunin var léttir fyrir Berlusconi en einnig ríkisstjórn Ítalíu, þar sem flokkur hans, Forza Italia, á sæti í ríkisstjórn Giorgiu Meloni og Berlusconi sjálfur sæti í efri deild ítalska þingsins. Pólitískir bandamenn Berlusconi voru fljótir að óska honum til hamingju með niðurstöðuna og Giorgia Meloni sagði að þessi langi ferill málsins, sem hafði verið í gangi frá 2010, hefði mikilvægar afleiðingar fyrir stjórnmál og stofnanir á Ítalíu.

Dómurinn markar lok máls sem hófst árið 2010, þegar Berlusconi, sem þá var forsætisráðherra á Ítalíu, var sakaður um að hafa keypt vændi af Karinu El-Mahroug, þegar hún var 17 ára gömul.

Dreginn fyrir rétt fyrir örlæti

Berlusconi var upphaflega fundinn sekur, en síðar sýknaður í áfrýjunardómstóli, þar sem ekki var hægt að færa sönnur á að hann hefði vitað hvað hún væri gömul. Dómarar töldu þó að vitni hefðu logið fyrir dómi, sem leiddi til ákærunnar fyrir mútugreiðslurnar. Það mál hófst árið 2017, en lauk nú á dögunum með sýknu.

Berlusconi er sagður hafa komið milljónum evra til Karinu El-Mahroug í formi húsa, bíla og mánaðarlegra greiðsla.

Lögmaður Berlusconi segir að þessar gjafir séu vegna þess að málið hafi skaðað orðspor El-Mahroug mikið og það sé verið að draga Berlusconi fyrir rétt, fyrir það eitt að vera rausnarlegur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka