Alþjóðlegur samstarfshópur blaðamanna sem breska dagblaðið The Guardian fjallar um hefur svipt hulunni af hakkarasveitinni Team Jorge. Innan hennar starfar hópur ísraelskra hakkara, eða tölvuþrjóta svokallaðra, sem heldur því fram að Team Jorge hafi haft áhrif á 33 forsetakosningar víða um heim með falsfréttum, villandi upplýsingum og samfélagsmiðlasíðum.
Stjórnandi Team Jorge er sagður Tal Hanan, fimmtugur fyrrverandi sérsveitarmaður í ísraelska hernum sem nú starfar sjálfstætt undir dulnefninu Jorge sem hakkaraliðið dregur einmitt nafn sitt af.
Eftir því sem rannsakendur komast næst hefur Hanan farið huldu höfði og haft áhrif á kosningar í tvo áratugi. Kveðast blaðamenn The Guardian hafa undir höndum skjöl og myndefni sem afhjúpi starfsemina.
Eftir því sem Hanan, eða Jorge, greindi blaðamönnunum frá, en þeir nálguðust hann undir fölsku flaggi án þess að hann vissi að hann sætti rannsókn, býður hann þjónustu sem gengur út frá að hafa áhrif á kosningar og kveður hann stórfyrirtæki meðal annars í viðskiptavinahópnum. Auk þess standi vinna hans leyniþjónustum til boða og stjórnmálaöflum. Hefur starfsvettvangur hans að eigin sögn verið Afríka, Suður- og Mið-Ameríka, Bandaríkin og Evrópa.
Lykilþáttur í þjónustu Team Jorge mun vera þróaður hugbúnaður sem gengur undir nafninu Advanced Impact Media Solutions, AIMS til styttingar. Stjórnar AIMS mörg þúsund fölskum notendasíðum á samfélags- og samskiptamiðlum, svo sem Twitter, LinkedIn, Facebook, Telegram, Gmail, Instagram og YouTube. Eru þar jafnvel uppdiktaðir notendur með aðgang að greiðslukortum, rafmynt og leigukerfinu Airbnb.
Reynist Hanan hafa stjórnað einhverjum aðgerða sinna gegnum ísraelska fyrirtækið Demoman International sem meðal annars er skráð á lista ísraelska varnarmálaráðuneytisins á heimasíðu sem það rekur til að ýta undir útflutning hergagna frá landinu.
Rannsóknarblaðamannahópurinn sem fletti ofan af Team Jorge kemur meðal annars frá dagblöðunum Le Monde, Der Spiegel og El País.