Reyndist saklaus eftir 28 ára afplánun

Johnson grét fögrum tárum þegar David Mason dómari kvað sýknudóminn …
Johnson grét fögrum tárum þegar David Mason dómari kvað sýknudóminn upp í gær. Hann hafði þá setið tæp 28 ár í fangelsi fyrir manndráp sem hann framdi ekki. Ljósmynd/Twitter

„Þetta er yfirþyrmandi,“ sagði Lamar Johnson þegar hann gekk út úr dómsal í St. Louis í Missouri í Bandaríkjunum í gær, frjáls maður eftir að hafa eytt tæplega 28 árum bak við lás og slá fyrir manndráp sem nú er talið sannað að hann hafi ekki verið sekur um.

Johnson, sem stendur á fimmtugu, hlaut lífstíðardóm fyrir að skjóta Marcus nokkurn Boyd til bana fyrir utan heimili sitt, það er heimili Johnsons, í október 1994. Árásina gerðu tveir grímuklæddir menn en Johnson hélt því statt og stöðugt fram að hann hefði ekki verið heima við þegar Boyd var ráðinn bani.

Kviðdómur taldi sekt hans sannaða á sínum tíma en nýverið breytti vitni að atburðinum framburði sínum og í kjölfarið játaði annar maður, sem þegar situr í fangelsi fyrir önnur brot, að hafa orðið Boyd að bana og hefði hann verið þaf að verki ásamt Phil Campbell sem játaði á sínum tíma og hlaut sjö ára dóm fyrir hlutdeild.

Hugðust ræna Boyd vegna skuldar

Kim Gardner saksóknari lagði í fyrra fram beiðni um að mál Johnsons yrði tekið til meðferðar á nýjan leik í ljósi nýrra gagna sem samtökin Innocence Project höfðu aflað um málið. Héldu lögfræðingar Johnsons því fram við endurupptökuna að saksóknaraembætti Missouri hefði á sínum tíma „aldrei fallið frá fullyrðingum sínum um að Johnson væri sekur og látið sér í léttu rúmi liggja að hann veslaðist upp og dæi bak við rimlana“.

Gaf embættið út yfirlýsingu í kjölfar sýknudómsins í gær og benti þar á að það hefði aðeins framfylgt réttum lögum og fylgt eftir upphaflegum úrskurði kviðdóms í málinu sem fundið hefði sakborninginn sekan á sínum tíma með stoð í þeim gögnum sem þá lágu fyrir.

Játningin í málinu kom frá James Howard en sá afplánar þegar lífstíðardóm fyrir manndráp og fleiri brot. Greindi hann frá því hvernig hann og Phil Campbell, sem hlaut sjö ára dóminn, lögðu á ráðin um að ræna Boyd sem að sögn skuldaði félaga þeirra peninga vegna fíkniefnaviðskipta.

Staðfesti Howard, sem nú er 46 ára gamall, að Johnson hefði ekki verið á staðnum fyrir utan heimili Johnsons þegar Howard og Campbell létu til skarar skríða. Þar var hins vegar vitnið James Elking sem ásamt Boyd hafði komið að heimili Johnsons til að kaupa krakk. Bar Elking því við að hann hefði bent á Johnson sem árásarmanninn þar sem lögregla hefði beitt hann miklum þrýstingi í þá veru.

Sky News

ABC7

NY Daily News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert