Sturgeon segir af sér

Sturgeon hefur sagt af sér sem forsætisráðherra og leiðtogi Skoska …
Sturgeon hefur sagt af sér sem forsætisráðherra og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins AFP

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra Skota hefur sagt af sér eftir rúmlega átta ár í starfi. Þá hættir hún einnig sem leiðtogi Skoska þjóðarflokksins.

Þetta tilkynnti hún á blaðamannafundi ráðherrabústaðnum í Edinborg rétt í þessu. Blaðamannafundurinn var tilkynntur með litlum fyrirvara og strax fóru sögusagnir um afsögn hennar á kreik.

Hún sagði forsætisráðherrastarfið vera það besta í heimi og kvaðst stolt af því að hafa verið fyrsta konan til þess að gegna embættinu ásamt því að vera lengst starfandi. Hún væri stolt af þeim sigrum sem hefðu unnist í hennar tíð en mikilvægt væri fyrir leiðtoga að vita hvenær ætti að stíga til hliðar, hennar tími væri nú kominn. Ákvörðunin sé henni þó erfið.

„Eitt það erfiðasta við þessa ákvörðun er að ég veit að ég myndi leiða skoska þjóðarflokkinn í átt að frekari sigrum,“ sagði Sturgeon.

Hvað varðar arftaka sagðist Sturgeon gegna embættinu þar til arftaki verður kjörinn.

Hún segist þó ekki vera að hætta í stjórnmálum og muni halda áfram að vinna að þeim málum sem hún hafi ástríðu fyrir eins og sjálfstæði Skota.

„Þetta er málefni sem ég trúi á heilshugar,“ sagði Sturgeon.

Skotland hafi breyst á árunum sem hafa liðið síðan hún tók við embættinu árið 2014. Hún nefnir hin ýmsu málefni sem snerta börn og fjölskyldur og bætt regluverk í kringum þolendur kynferðisofbeldis.

„Ég hlakka til þess að horfa stolt á störf arftaka míns,“ sagði Sturgeon.

Að lokum þakkar hún fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn og Skosku þjóðinni fyrir traustið og forréttindi þess að fá að sinna embættinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert