Farþegaþota bandaríska flugfélagsins United Airlines, á leið frá Maui-eyju til San Francisco, steyptist skyndilega niður um rúma 400 metra þegar vélin var að klifra eftir flugtak, þann 18. desember.
Gögn vefsins Flightradar sýna að farþegaþotan, sem er af gerðinni Boeing 777, tók snögga dýfu 71 sekúndu eftir flugtak. Hrapaði hún úr 2.200 feta hæð yfir sjávarmáli og niður í um 775 feta hæð.
Vélin var aðeins í um 235 metra hæð þar sem flugmenn náðu að rétta hana við og klifra á ný.
Lentu þeir henni örugglega í San Francisco á leiðarenda.
As part of its reporting on the steep dive by United Airlines flight UA1722 after departure from Kahului last December, @theaircurrent analyzed data from Flightradar24. Review and download the data at https://t.co/Ao9YDwt5AL pic.twitter.com/a09oqteYEL
— Flightradar24 (@flightradar24) February 12, 2023
Öryggisnefnd samgöngumála í Bandaríkjunum (NTSB) mun skila skýrslu um atkvikið á næstu vikum.
„Það var fjöldi ópa í flugvélinni. Það vissu allir að eitthvað væri óvenjulegt,“ segir farþegi flugvélarinnar í viðtali við bandarísku fréttaveituna CNN.
Fjöldi miðla vestanhafs hefur greint frá atvikinu, þar á meðal dagblaðið San Francisco Chronicle. Í umfjöllun blaðsins segir að flugmennirnir tveir hafi samtals 25 þúsund flugtíma að baki.