Átta almennir borgarar látnir í árásum Rússa

Úkraínumenn verjast í Bakhmut.
Úkraínumenn verjast í Bakhmut. AFP

Átta almennir borgarar létust og sextán til viðbótar særðust í árásum Rússa á borgina Bakhmút og Kerson-hérað.

Yfirvöld í Kerson segja að Rússar hafi stóraukið stórskotahríð og eldflaugaárásir í héraðinu á undanförnum sólarhring og meðal annars ráðist á íbúðarhverfi.

Átök hafa einnig verið mikil í Bakhmút að undanförnu. Samkvæmt Irínu Verestsjúk, varaforsætisráðherra Úkraínu, eru enn um 6.000 almennir borgarar staddir í Bakhmút. Hún hvetur alla til að yfirgefa borgina eins fljótt og hægt er, bæði til að tryggja eigið öryggi, en sömuleiðis til að auðvelda her- og öryggissveitum störf sín í borginni.

Árásir Rússa á innviði í Úkraínu héldu áfram í gær, bæði í héruðunum Lvív og Kírovhorad. Stepan Kúlyníak, yfirhershöfðingi í Lvív, sagði að eldflaugar hefðu lent á mikilvægum innviðum í héraðinu og valdið skemmdum á mannvirkjum, án þess þó að segja hvaða innviði var ráðist á. Yfirvöld í Kírovhorad segja að ráðist hafi verið á olíubirgðastöðvar, sem hafi orsakað töluverðan eld sem náðist þó fljótt að slökkva.

AFP

Setja þrýsting á framkvæmdastjórn ESB

Á meðan á þessu stendur, leggja þingmenn á Evrópuþinginu þrýsting á leiðtoga ESB og segja að þeir verði að íhuga það alvarlega að senda orrustuþotur og þyrlur til Úkraínu. Þingmennirnir segja sömuleiðis að nauðsynlegt sé að halda áfram að sjá þeim fyrir skotfærum og loftvarnakerfum, til að tryggja að landið geti ekki aðeins varið sig, heldur náð aftur stjórn á öllu sínu landsvæði.

Þingmennirnir kalla einnig eftir því að nýjar viðskiptaþvinganir verði lagðar á Rússland og þær sem fyrir eru verði hertar. Þá leggja þeir til að eignir sem hafa verið gerðar upptækar hjá rússneskum ólígörkum verði notaðar til að fjármagna uppbyggingu í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert