Fjölskylda Tyre Nichols, mannsins sem lést eftir árás lögreglumanna í Memphis í Tennessee ríki í Bandaríkjunum segir að bænir og samúðarkveðjur haldi þeim gangandi. Nú hefjist ferli réttlætisins.
Lögmaður fjölskyldunnar, Ben Crump boðaði til blaðamannafundar þar sem hann sagði skipta mestu máli að réttarmeðferð málsins sé nú að hefjast. Þau verði að einbeita sér að því að sækja réttlætið fyrir Nichols.
Faðir Nichols, sagði daginn frábæran fyrir þær sakir að nú væri ferlið hafið. Fjölskyldan væri glöð að það væri komið að þessum degi.
Móðir Nichols sagðist mjög dofin.
„Ég bíð eftir því að vera vakin upp frá þessari martröð, að einhver vekji mig. Ég veit það mun ekki gerast, ég veit að sonur minn er látinn, ég veit að ég mun ekki sjá hann aftur. Við verðum að hefja þetta ferli réttlætis og ég vil að allir lögreglumennirnir geti horft framan í mig, þeir hafa ekki gert það enn, þeir gerðu það ekki í dag. Þeir höfðu ekki hugrekkið í að horfa framan í mig eftir það sem þeir gerðu syni mínum. Þeir munu sjá mi hvern einasta dag af þessum réttarhöldum þar til við náum réttlætinu fram fyrir son minn.“
Fyrr í dag neituðu fimm fyrrverandi lögreglumenn sök fyrir rétti vegna málsins. Justin Smith, Taddarius Bean, Demetrius Haley, Desmond Mill og Emmitt Martin III eru sakaðir um að hafa myrt hinn 29 ára Tyre Nichols með árás sinni þann 7. janúar síðastliðinn.