Borgaryfirvöld í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, hafa ákveðið að hætta með bílastæði sem aðeins voru fyrir konur. Þetta tilkynnti Oh Se-hoon, borgarstjóri Seúl, núna á dögunum, en það var hann sem kom þessum kvennabílastæðum á í borginni árið 2009.
Stæðin voru upphaflega kynnt til sögunnar til að sporna gegn bylgju ofbeldis gegn konum í bílastæðahúsum. Tveir þriðju þeirra glæpa sem konur urðu fyrir í bílastæðahúsunum voru kynferðisglæpir og því var gripið til þess að leyfa eingöngu konum að leggja nær útgangi bílastæðahúsanna, til að sporna gegn ofbeldinu.
Borgaryfirvöld meta það núna sem svo að ekki sé þörf á kvennabílastæðunum lengur og ætla frekar að veita fjölskyldum og óléttum konum forgang að stæðunum.
Gagnrýnendur segja að þetta sé aðeins nýjasta dæmið um andfeminískar aðgerðir stjórnvalda í Suður-Kóreu, sem núna hafi færst yfir á sveitarstjórnarstigið.
Aðrir vilja þó meina að kvennabílastæðin feli í sér mismunum gagnvart karlmönnum og að hættan á ofbeldi í bílastæðahúsunum sé ekki lengur til staðar þar sem að búið sé að setja upp mikið af öryggismyndavélum í húsunum.