Bjargað úr rústunum eftir tólf daga

Maður stendur fyrir framan gjörónýtt heimili sit í Hatay. Talið …
Maður stendur fyrir framan gjörónýtt heimili sit í Hatay. Talið er að milljónir manna séu á vergangi í Tyrklandi og Sýrlandi vegna jarðskjálftahrinunnar. AFP/Yasin Akgul

Tyrkneskir björgunarmenn drógu í dag 45 ára gamlan mann úr rústum tæplega tólf dögum eftir að mannskæður skjálfti upp á 7,8 að stærð reið yfir í Hatay héraði nærri sýrlensku landamærunum og kostaði tugi þúsunda lífið.

Björgunarmenn hafa fundið fólk sem komst lífs af alla vikuna þrátt fyrir að það verið þetta lengi undir rústunum í bítandi frosti. Þeim fækkar þó með degi hverjum.

Þraukaði í 278 klukkustundir 

Hakan Yasinoglu, var bjargað 278 klukkustundum eftir að skjálftinn reið yfir.  Myndir á samfélagsmiðlum og í tyrkneskum fjölmiðlum sýndu björgunarmenn bera Yasinoglu með sjúkrabörum í gegnum rústirnar. Yasinoglu var bundinn niður á börurnar til að forðast fall og vafinn inn í gulllitað hitateppi. Honum var strax komið fyrir í sjúkrabíl og ekið burt.

Mannfall komið yfir 41 þúsund

Þremur öðrum var bjargað seint á fimmtudag og snemma í gær, þar á meðal fjórtán ára dreng, en leitinni var sums staðar haldið áfram allan sólarhringinn.

Hér fyrir neðan sjást björgunarmenn bera Yasinoglu út úr rústunum.

Fuat Oktay, varaforseti Tyrklands, sagði á föstudag að björgunaraðgerðir væru nú á færri en 200 stöðum í héraðinu og víða hefur þeim verið hætt.

Yfir 41.000 manns hafa látist í Tyrklandi og Sýrlandi í skjálftanum og tugþúsundir annarra hafa slasast og milljónir manna hafa misst heimili sín í frostinu.

Skjálftinn varð í 11 héruðum í Tyrklandi. Tyrkneskir embættismenn hafa sagt að björgunarstarfi í þremur héruðum, Adana, Kilis og Sanliurfa, sé nú lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert