Hæstiréttur snýr ökuleyfissviptingu

Rafhlaupahjól bíða knapa sinna við Aker-bryggju í miðborg Óslóar blíðviðrisdag …
Rafhlaupahjól bíða knapa sinna við Aker-bryggju í miðborg Óslóar blíðviðrisdag einn í júní 2021. Hæstiréttur dæmdi í dag að ölvunarakstur á þessum farartækjum gæti ekki jafngilt ölvunarakstri á bifreið. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hæstiréttur Noregs dæmdi í dag að ölvunarakstur á rafhlaupahjóli gæti ekki orðið grundvöllur ökuleyfissviptingar og hafði þannig að engu þá ákvörðun norskra stjórnvalda, sem tók gildi 15. júní í fyrra, að rafhlaupahjól færðust upp í flokk vélknúinna ökutækja hvað ölvunarakstur snerti og giltu þar með sömu reglur um þau og um akstur bifreiðar undir áhrifum.

Málið sem til meðferðar var snerist um mann á þrítugsaldri sem lögregla stöðvaði við akstur rafhlaupahjóls í Ósló í fyrra og reyndist vínandamagn í blóði hans nema 0,8 prómillum. Var hann sviptur ökuleyfi í eitt ár og sektaður um 70.000 krónur, jafnvirði 986.000 íslenskra króna, en í Noregi nema sektir fyrir ölvunarakstur 1,5-földum mánaðarlaunum sakbornings fyrir skatt.

Hættueiginleikar ekki sambærilegir

Lögmannsréttur Borgarþings vísaði áfrýjun dóms héraðsdóms frá en áfrýjunarnefnd Hæstaréttar úrskurðaði að rétturinn tæki málið til meðferðar í kjölfar umsóknar lögmanns dómfellda.

Varð niðurstaða Hæstaréttar sú að hættueiginleikar rafhlaupahjóls væru það miklu minni en bifreiðar að sama refsing fyrir akstur undir áhrifum á hjólinu teldist ekki forsvaranleg. Höfuðáhættan við notkun rafhlaupahjóls sneri að knapa þess sjálfum, í fæstum tilfellum yrðu aðrir en hann fyrir líkamstjóni. „Hættan á að skaða aðra verður að vega þyngra en hættan á að gerandi beri sjálfur skaða af,“ segir í dómsorði Hæstaréttar sem til samræmis við þessa niðurstöðu lækkaði sektina úr 70.000 krónum í 15.000.

Brynjar Meling lögmaður kveðst í samtali við norska ríkisútvarpið NRK einmitt hafa verið að bíða þess að nýju reglurnar kæmu inn á borð Hæstaréttar. „Hvað sagði ég ekki?“ segir hann við NRK en Meling hefur frá upphafi verið þeirrar skoðunar að nýju reglurnar stæðust ekki.

Sváfu í tíma

Fagnar Meling dómsniðurstöðunni þar sem hann er á leið fyrir millidómstigið lögmannsrétt með mál tveggja skjólstæðinga í næstu viku. Voru báðir sviptir ökuleyfi í 18 mánuði fyrir ölvunarakstur á rafhlaupahjóli og hlutu sektir sem námu 80.000 og 88.000 krónum í héraði, jafnvirði 1,1 og tæplega 1,2 milljóna íslenskra króna.

„Þegar hvorki saksóknari né héraðsdómur hafa íhugað þau sjónarmið, sem liggja til grundvallar dómi Hæstaréttar, hafa þeir sofið í kennslustundinni. Nú vona ég að við getum sett viðmið,“ segir Meling enn fremur.

NRK

NRKII (Meling áfrýjar máli í september)

NRKIII (sviptir í Stavanger)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert