Kínverski milljarðamæringurinn og yfirmaður fjárfestingabankans China Renaissance er horfinn, að sögn bankans. Hlutabréf í fyrirtækinu hrundu í Hong Kong við fregnirnar.
Bao Fan er þekktur í kínverskum tækniiðnaði og hefur verið í lykilhlutaverki í tengslum við frumkvöðlafyrirtæki á netinu heima fyrir.
„Fyrirtækinu hefur ekki tekist að ná sambandi við herra Bao,“ sagði China Renaissance í yfirlýsingu sem var birt í gær.
Chinese billionaire tech banker reported missing by his firm https://t.co/kpx5tI092c
— BBC News (World) (@BBCWorld) February 17, 2023
Hlutabréf í bankanum féllu á einum tímapunkti niður um 50 prósent eftir yfirlýsinguna, áður en þau enduðu 30 prósentum undir upphaflegu markaðsvirði.
Að sögn fréttamiðilsins Caixin hafði ekkert náðst í hinn 52 ára milljarðamæring í tvo sólarhringa í gærkvöldi.
Vangaveltur eru uppi um að hvarfið tengist hugsanlegu átaki stjórnvalda í Kína í langvarandi baráttu þeirra gegn spillingu í fjármálageiranum.