Starfsemi á fjölda flugvalla í Þýskalandi er lömuð í dag vegna verkfalla flugvallarstarfsmanna í stéttarfélaginu Verdi. Íslendingur sem staddur er á flugvellinum í Munchen segir mikinn hug vera í fólkinu sem tekur þátt í fólkinu.
Um er að ræða einskonar „tilrauna-verkfall” sem stendur aðeins í einn dag. Það er gert til þess að hvetja til samninga en verkalýðsfélagið taldi sig þurfa að senda skýr skilaboð til yfirmanna. Verði ekki komist að ásættanlegu samkomulagi munu verkföll hefjast undir lok mánaðar.
2.340 flugferðum hefur verið aflýst og hefur það áhrif á um 295 þúsund farþega.
Þessu greinir þýski miðillinn Deutsche Welle frá.
Verkföll dagsins ná víða um Þýskaland. Um er að ræða flugvellina í Munchen, Frankfurt, Stuttgart, Hamborg, Dortmund, Hanover og Bremen. Þegar verkfallið var tilkynnt ákváðu tveir stærstu flugvellirnir í Frankfurt og Munchen að aflýsa öllu flugi í dag, föstudag.
Íslendingur var staddur á flugvellinum í Munchen þar sem mikil læti brutust út vegna samstöðufundar starfsfólks. Hann var á leiðinni heim til Íslands eftir að hafa verið í fríi í Austurríki.
Í samtali við mbl.is segir Íslendingurinn að Icelandair hefði látið vita af verkfallinu fyrir þremur dögum síðan.
„Það er eiginlega ekkert fólk í flugstöðvarbyggingunni, hún er nánast tóm. Mikið af búðunum eru lokað, einhverjir veitingastaðir opnir. Svo eru þau á milli „terminala“, þar er einhver fundur og virðist vera mikill hugur í fólki, svona með flautur og mikið af lögreglu úti um allt,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Hóparnir sem eru í verkfalli eru meðal annars flugvallarsstarfsfólk og slökkvilið en þrátt fyrir verkföllin hafa ekki öll flug verið stöðvuð. Flug hjálparstarfa til og frá til Tyrklandi haldast óbreytt ásamt flugi yfirvalda, hers og heilbrigðisþjónustu.