Búlgarska blaðamanninum Christo Grozev hefur verið meinað að verða viðstaddur afhendingu bresku kvikmyndaverðlaunanna BAFTA, en verðlaunahátíðin verður haldin annað kvöld.
Grozev, sem á hlutverk í heimildarmyndinni um rússneska stjórnarandstæðinginn Alexei Navalní, kveður það hafa komið sér að óvörum að honum og fjölskyldu hans hafi verið bannað að mæta á hátíðina.
Að sögn Grozevs er orsökin sú að viðvera hans er talin stofna öryggi fólks í hættu.
„Augnablik eins og þetta sýna þá auknu hættu sem steðjar að sjálfstæðum blaðamönnum um allan heim,“ tísti Grozev um málið á Twitter.
Breska kvikmyndaakademían ber það fyrir sig að öryggi sé ofar öllu í hennar huga, að því er segir í umfjöllun breska ríkisútvarpsins.
Ekki hefur öllum tengdum myndinni verið meinað að vera við hátíðina. Akademían staðfestir þannig við PA-fréttaveituna að nokkrir framleiðendur verði þar á morgun.
Grozev er þekktur fyrir að hafa leitt rannsóknir miðilsins Bellingcat í málefnum Rússlands. Meðal annars hjálpaði hann til við að afhjúpa launráð um að myrða Navalní með taugaeitrinu novítsjok.
Í myndinni er sýnt frá því hvernig Grozev finnur gögn sem benda til þess að launráðin hafi verið brugguð í sjálfri Kremlinni í Moskvu. Rússnesk stjórnvöld hafa neitað að hafa haft nokkuð með eitrunina að gera.
Grozev kveðst hafa komist að því að honum og syni hans væri ekki lengur boðið eftir að hafa fengið skilaboð frá fréttastofu CNN fyrir nokkrum dögum. Í samtali við breska ríkisútvarpið segir hann þá hafa haft miða á hátíðina, en að boðið hefði verið dregið til baka eftir ráðgjöf frá lögreglunni í Bretlandi.
Þá bætir hann við að á undanförnum vikum hafi hann fengið „fjölda viðvarana frá mismunandi löggæslustofnunum í Evrópu, um að trúverðug sönnunargögn séu fyrir því að líf mitt sé í hættu“.
Fjallað var um það ítarlega á mbl.is fyrr í mánuðinum, að Grozev hefði flúið Vínarborg af ótta við útsendara frá Kreml. Hann hefur búið í borginni í nær tuttugu ár.
Í yfirlýsingu segir Lundúnalögreglan að hótanir erlendra ríkja sem beinast að blaðamönnum í Bretlandi séu „raunveruleiki sem við höfum algjörlega áhyggjur af“.
Einnig er bent á að ráðgjöf lögreglu vegna öryggisráðstafana geti þýtt að skipuleggjendur þurfi að taka erfiðar ákvarðanir til að minnka hættuna á hvers kyns öryggisógnum á viðburði þeirra.
Hér að neðan má sjá stiklu úr myndinni: