Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ákvað í dag að verja sínum hinstu dögum á heimili sínu með fjölskyldu sinni.
Mun hann þar þiggja líknandi meðferð í stað frekari læknisfræðilegra inngripa. Frá þessu greinir Carter-miðstöðin, sem forsetinn fyrrverandi kom á fót árið 1982.
Carter, sem er 98 ára að aldri, hefur nokkrum sinnum að undanförnu verið lagður inn á sjúkrahús, til skamms tíma í senn.
„Hann hefur fullan stuðning fjölskyldu sinnar og læknisteymis síns,“ segir í tilkynningunni þar sem fjölskyldan biður einnig um næði að sinni.
Jimmy Carter var 39. forseti Bandaríkjanna og gegndi því embætti frá 1977 til 1981.
Sem demókrati tók hann við Hvíta húsinu af repúblikananum Gerald Ford og lét í hendur annars repúblikana, Ronalds Reagan, þegar sá bar sigur úr býtum í forsetakosningunum árið 1980.
https://t.co/1auzIG0yqy pic.twitter.com/JJQMWgg8DW
— The Carter Center (@CarterCenter) February 18, 2023