Hengdur ef sagan er ekki góð!

​John Ingham í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Hann hefur miklar mætur …
​John Ingham í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Hann hefur miklar mætur bæði á landi og þjóð. ​Ljósmynd/Jonathan Buckmaster, Daily Express

Breski blaðamaðurinn John Ingham hefur sent frá sér sína fyrstu skáldsögu. Blood-Eagle Saga nefnist hún og fjallar um víkinga sem hafa heillað hann frá blautu barnsbeini.

Blood-Eagle Saga hefst í langhúsi víkinga í Noregi um miðjan vetur. Sven Ravenfeeder og menn hans hvíla þar lúin bein áður en ráðist verður á ný í gripdeildir og vígaferli með vorinu. Skyndilega er knúið dyra og í gættinni stendur ungur maður með hvítt, sítt hár, Snorri að nafni, skáld ofan af Íslandi. Hann biður um húsaskjól og kveðst reiðubúinn að skemmta mönnum á móti. Sven Ravenfeeder vill ekki senda gestinn aftur út á Óðin og gaddinn en stillir Snorra þó upp við vegg; líki mönnum saga hans sé hann velkominn að njóta alls sem Sven hefur upp á að bjóða en missi hún marks verði hann hengdur að máli sínu loknu. Snorri tekur þessari áskorun og segir Sven og mönnum hans söguna af víkingunum Grími og Ásgeiri sem elda grátt silfur saman og berst leikurinn víða um völl. Á endanum skolar þeim á land í Ameríku, þar sem víkingarnir ganga á hólm við innfædda.

„Sagan snýst um það sem hendir þá í Ameríku og hver verður fórnarlamb blóðarnarins,“ segir John Ingham gegnum símann frá heimili sínu í Surrey á Englandi, en blóðörninn er sem kunnugt er gömul og grimmileg aftökuaðferð víkinga. „Sögunni vindur hratt fram og mikið gengur á. Söguhetjan, Ásgeir, kann jafnvel að vera andhetja. Það er lesandans að meta. En þegar upp er staðið eru þetta bara harðjaxlar að gera það sem er þeim eðlilegt og í blóð borið.“

Meira segjum við ekki um söguþráðinn.   

Villtir og stjórnlausir

Það er engin tilviljun að víkingar og indíánar skuli berast á banaspjót í bókinni en John hefur verið heillaður af hvorum tveggja frá unga aldri. „Mig hefur alltaf langað að vita hversu langt, bæði til austurs og vesturs, víkingarnir fóru á sinni tíð. Fyrst þeir komust frá Íslandi til Grænlands og þaðan yfir til Nýfundnalands má spyrja sig hversu langt þeir fóru inn í Ameríku.“

 – Hvað heillar þig svona mikið við víkinga?

 „Hvað þeir voru villtir og stjórnlausir,“ svarar hann hlæjandi. „Svo gengu þeir yfir heiminn, eins og mig langaði alltaf að gera – eins og hægt var á þeim tíma. Mér hefur alltaf fundist víkingarnir miklu áhugaverðari en til dæmis dýrlingar og kóngar sem einbeittu sér meira að stjórnsýslu. Þegar ég var 18 ára dvaldist ég um tíma á Orkneyjum sem aðstoðarmaður ljósmyndara og eftir það var ekki aftur snúið. Ég meina, það var engu líkt að skoða veggjakrotið eftir víkingana. Á seinni árum hef ég svo ferðast mikið um Norðurlöndin, Ísland, Noreg, Danmörku, Svíþjóð og meira að segja Grænland. Til allrar hamingju er konan mín fornleifafræðingur, þannig að hún umber mig.“

Hann hlær.

Með DNA-sönnun

 –  Mér skilst meira að segja að þú sért með DNA-sönnun fyrir því að þú sért sjálfur kominn af dönskum víkingum.

„Já, vegna blaðaumfjöllunar sem ég vann að um árið fór ég í DNA-próf. Niðurstaðan var sú að móðir mín væri af írskum ættum, sem rímaði við það sem ég vissi fyrir. Margt benti hins vegar til þess að faðir minn væri kominn af dönskum víkingum, líkurnar eru víst um 80%. Það eru 10% líkur á því að hann sé af norsku bergi brotinn og 10% líkur á því að hann sé af engilsaxneskum uppruna. Það er því líklegt að fyrir nokkrum öldum hafi einhver víkingur gert það sem víkingar voru frægir fyrir.“

Ég heyri hann nánast glotta.

Eftir að þetta lá fyrir fór John til Danmerkur til að fjalla um arfleifð víkinganna fyrir blað sitt, Daily Express, og sigldi þá meðal annars með víkingaskipi frá Hróarskeldu. „Það var ógleymanleg upplifun. Ég endurtók þetta svo í Álasundi í Noregi. Meðan maður er um borð í svona skipi áttar maður sig enn betur á því hvílík hörkutól víkingarnir voru. Það er eitt að fara í skemmtisiglingu á svona opnu skipi um fjörð eða flóa en annað að sigla yfir heilu úthöfin. Þetta hafa verið ótrúlegir menn.“

Ítarlega er rætt við John Ingham í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um víkinga, bresk stjórnmál, knattspyrnu, fugla og fleira. 

Meira má lesa um höfundinn og bókina á johninghamauthor.co.uk

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert