Umdeildi áhrifavaldurinn Andrew Tate, sem situr í varðhaldi í Rúmeníu vegna gruns um kynferðisofbeldi og mansal, hefur sent að minnsta kosti einum meintum brotaþola bréf þar sem þess er krafist að hann falli frá kærunni.
Í bréfinu, sem var sent fyrir hönd Andrews og bróður hans Tristans af bandarískri lögmannsstofu, er þess krafist að konan dragi vitnisburð sinn til baka ellegar megi hún eiga von á því að vera stefnt fyrir ærumeiðingar.
Fréttastofa BBC hefur bréfið undir höndum en þar segir meðal annars:
„Þú hélst því ranglega fram í apríl 2022 að skjólstæðingur okkar hafi hneppt þig í þrældóm og misnotað þig. Þessar röngu staðhæfingar um Tate bræðurna hefur þú endurtekið við lögreglu, fjölmiðla og aðra bandaríska ríkisborgara“.
Sérfræðingur í málefnum kynferðisbrota, sem BBC ræðir við, segir eina tilgang bréfsins vera að þagga niður í fórnarlömbum og tryggja að þau þori ekki að segja frá sinni upplifun. Talsmaður lögmannstofunnar segir Tate-bræðurna hins vegar eiga fullan rétt á því að vernda sína æru þrátt fyrir að þeir sitji í varðhaldi.