Karlmaður á sextugsaldri vopnaður þremur byssum skaut sex manns til bana í smábæ Mississippi-ríki í Bandaríkjunum í gær. Fyrrverandi eiginkona mannsins er meðal hinna látnu.
Richard Dale Crum, maðurinn sem liggur undir grun, er talinn hafa verið einn að verki og hefur lögreglan handtekið hann.
Samkvæmt New York Times hófust skotárásirnar klukkan 11 að staðartíma í gærmorgun þegar að sá grunaði er sagður hafa skotið mann til bana á bensínstöð. Ekki er vitað um tengsl milli þeirra.
Því næst er Crum talinn hafa haldið á heimili í nágrenninu þar sem hann skaut fyrrverandi eiginkonu sína til bana og særði unnusta hennar.
Að því loknu segja rannsakendur Crum hafa stefnt að húsi nágranna sinna þar sem að hann skaut mann sem talinn er hafa verið stjúpfaðir hans og konu sem ekki er vitað hver er.
Í kjölfarið skaut hann tvo til viðbótar í nágrenninu, annað fórnarlambið sat inni í bíl og einn var gangandi vegfarandi skammt frá heimili hans. Þeir eru taldir hafa verið iðnaðarmenn sem störfuðu í nágrenninu.
Lögreglan kom auga á hinn grunaða undir stýri, út frá lýsingum sjónarvotta. Eftir stutta eftirför tókst þeim að handsama hann.
„Það er ekki mikið um ofbeldisfulla glæpi á þessum slóðum. Þetta er áfall,“ segir lögreglustjórinn Brad Lance.