Aðgerðum einungis haldið áfram í tveimur héruðum

Frá Kahramanmaras.
Frá Kahramanmaras. AFP/Bulent Kilic

Almannavarnir í Tyrklandi hafa fyrirskipað að leitar- og björgunaraðgerðum í landinu verði hætt að undanskildum tveimur héruðum. Enginn hefur fundist á lífi undir rústum síðastliðinn sólarhring. 

„Í mörgum héruðum er leitar- og björgunaraðgerðum lokið. Aðgerðum verður haldið áfram í Kahramanmaras og Hatay-héruðum,“ sagði Yunus Sezer, yfirmaður almannavarna, við blaðamenn í Ankara, höfuðborg Tyrklands.

Jarðskjálfti upp á 7,8 reið yfir Tyrkland og Sýrland þann 6. febrúar. Fjöldi staðfestra dauðsfalla hefur nú náð 46 þúsundum, samkvæmt Aljazeera, en 44 þúsund samkvæmt fréttastofu AFP.

Flestir þeir Íslendingar sem fóru út á vegum utanríkisráðuneytisins til að aðstoða við björgunarstarfið eru nú komnir til landsins aftur. 

Leita í grennd við 40 byggingar

Kahramanmaras-héraðið varð hvað verst úti í skjálftanum en eins og áður sagði verður aðgerðum haldið þar áfram. 

Að sögn Sezer fara aðgerðir nú fram í grennd við 40 byggingar en hann gerði ráð fyrir því að sú tala myndi lækka eftir því sem líða tekur á daginn.

Fuat Oktay, varaforseti Tyrklands, sagði að um 105 þúsund byggingar hefðu hrunið til jarðar eða orðið fyrir verulegum skemmdum í skjálftanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert