Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varaði Kínverja við því að endurtaka þá „óábyrgu“ aðgerð að senda njósnaloftbelg inn fyrir lofthelgi Bandaríkjanna er hann fundaði með kínverska starfsbróður sínum Wang Yi í Munchen, þar sem öryggisráðstefnan er nú haldin.
Blinken greindi frá fundinum á Twitter þar sem hann kveðst jafnframt hafa varað Kínverja við því að veita Rússum stuðning í stríðinu við Úkraínu, með því að senda þeim búnað.
Wang Yi svaraði í sömu mynt og sagði viðbrögð Bandaríkjamanna við loftbelgnum, sem hann telur „hysterísk og fáránleg“, hafa skaðað samband stórveldanna tveggja. Hvatti hann Bandaríkin til að viðurkenna mistök í málinu og bæta fyrir þann skaða sem að þau hefðu valdið.
Kínverjar hafa neitað því að um njósnaloftbelg hafi verið um að ræða. Bandarísk stjórnvöld eru þó ekki sannfærð og halda því statt og stöðugt fram að loftbelgurinn hafi verið ætlaður til njósna.
Fundur utanríkisráðherranna varði í um klukkustund og voru viðræðurnar harðar og beinskeyttar, samkvæmt heimildum fréttastofu AFP.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagst ætla að ræða um loftbelginn við Xi Jinping, forseta Kína.
Hann lagði þó áherslu á að Bandaríkin væru ekki að leitast eftir nýju Köldu stríði en að hann myndi þó ekki biðjast afsökunar á að hafa skotið loftbelginn niður.
Þá hafa Kínverjar einnig sakað Bandaríkjamenn um að senda loftbelgi og hafa ásakanir gengið á víxl undanfarna daga.