Minnst 36 manns hafa látist í flóðum og aurskriðum í São Paulo í Brasilíu að sögn yfirvalda þar í fylkinu í kjölfar gríðarmikils regns í gær sem sums staðar mældist allt að 600 millimetrar sem er tvöföld úrkoma alls mánaðarins samanlagt.
Á samfélagsmiðlum birtast myndskeið sem sýna heilu hverfin á kafi, akbrautir sem vatnsflaumur hefur fært í kaf og brak og rusl á floti í kjölfar þess er flóð hrifu með sér heilu húsin. Hafa margar borgir neyðst til að aflýsa kjötkveðjuhátíðum sínum sem um þessar mundir eru haldnar í landinu.
„Björgunarlið kemst ekki til nokkurra staða, hér ríkir hreinn glundroði,“ segir Felipe Augusto, borgarstjóri í São Sebastião þar sem allt er á tjá og tundri. „Við höfum ekki komist í að meta tjónið, við erum að reyna að bjarga fórnarlömbunum,“ heldur borgarstjóri áfram og segir fjölda fólks saknað auk þess sem um fimmtíu hús hafi hrunið og skolast á brott með flóðavatni.
Hefur dagblaðið Folha de São Paulo eftir embættismanni hjá almannavörnum að búast megi við mun fleiri dauðsföllum en þeim sem nú er vitað um. Á þriðja hundrað hafa misst heimili sín og tæplega 350 þurft að yfirgefa sín í öryggisskyni á strandsvæðunum norður af São Paulo. Loka þurfti höfninni í Santos, stærstu vöruflutningahöfn Suður-Ameríku, þegar ölduhæð þar var orðin rúmlega metri.
Luiz Inácio Lula da Silva forseti, sem var í fríi í Bahia í norðausturhluta landsins, boðaði komu sína á hamfarasvæðin í dag og sendi þeim samúðarkveðjur á Twitter sem misst höfðu ástvini eða orðið fyrir öðru tjóni. Lofaði forsetinn því að yfirvöld legðust nú á eitt við að tryggja heilbrigðishjálp og björgunarstarfsemi.