Norskir taugalæknar vara eindregið við notkun hláturgass, eða köfnunarefnisoxíðs, sem vímuefnis en notkun þess í slíkum tilgangi, sem ekki er ný af nálinni, jókst töluvert í Noregi meðan á heimsfaraldrinum stóð og aðföng hefðbundinna fíkniefna skertust til muna.
Ræðir norska ríkisútvarpið NRK við „Axel“, sem svo er nefndur í viðtalinu, 19 ára gamlan mann sem lamaðist tímabundið neðan mittis eftir notkun slíks gass.
„Fyrst hélt ég að ég væri bara svona búinn eftir æfingu,“ rifjar Axel upp sem í fyrstu tók að finna fyrir tilfinningaleysi í tánum sem svo færðist upp fótleggina og upp að miðju baki. Hann hafði þá notað hláturgas reglulega um hálfs árs skeið en auðvelt er að kaupa slíkt gas í verslunum þar sem það er einnig notað til að knýja rjómasprautur.
My Vuong Hermansen, yfirlæknir á taugadeild Ullevål-sjúkrahússins í Ósló, greinir NRK frá nýrri upplifun lækna deildarinnar í fyrravor og -sumar. „Sjúklingar fóru að koma hingað í hjólastólum og gangandi við hækjur. Þeir glímdu við víðtæka lömun og gátu ekki gengið,“ segir Hermansen.
Við athugun hafi ýmiss konar skaði komið í ljós, í heila, mænu og taugum útlima. Nú sé svo komið að tíu sjúklingar hafi þurft að leggjast inn til meðhöndlunar vegna þessa en það er fjölgun um sömu tölu, tíu, á hálfu ári. Eiga þessir sjúklingar það sameiginlegt að hafa neytt hláturgass um nokkurt skeið.
Hjá upplýsingamiðstöð Lýðheilsustofnunar Noregs um eitranir hefur fjöldi fyrirspurna vegna hláturgass margfaldast á stuttum tíma. Dag Jacobsen er sérfræðingur við miðstöðina og einnig prófessor í bráðalyflækningum við Háskólasjúkrahúsið í Ósló (sem er Ullevål-sjúkrahúsið).
„Misnotkun hláturgass hefur siglt undir ratsjá í mörg ár,“ segir Jacobsen við NRK. Hann segir gasið hafa verið notað í vímutilgangi um árabil á skemmtistöðum í suðurhluta álfunnar en nú hafi notkun þess í Skandinavíu aukist hröðum skrefum og segir Jacobsen svo rammt að kveða, að gasið skipi sér nú í flokk með áfengi og kannabisefnum í útbreiðslu.
„Axel“ greinir enn fremur frá því að sérstök skemmtun þyki að aka bifreið undir áhrifum gassins og kveðst hann þekkja marga sem lent hafi í árekstrum þegar þeir missa meðvitund vegna notkunarinnar. Sjálfum tókst honum að afstýra árekstri með naumindum þegar hann var í sama ástandi.
Mohammed Hersi hefur veitt neyslunni athygli, ekki síst í bifreiðum. Hann er ráðgjafi hjá Hagsmunasamtökum vímuefnaneytenda, Rusmisbrukernes interesseorganisasjon, eða RIO, og starfar eitt kvöld í viku sem svokallaður útiráðgjafi en þá er hann á ferli um götur Óslóar ásamt samstarfsfólki og ræðir við hvers kyns neytendur sem til hans leita.
„Fólk situr í hópum inni í bílum, á bílastæðum eða í vegarköntum, og andar þessu að sér úr blöðrum. Ég hef rætt þetta á ýmsum vettvangi en ekkert er að gert,“ segir Hersi og kveðst vonsvikinn.
Hermansen taugalæknir segir suma sjúklingana ná hægum bata en aðrir muni aldrei ná sér að fullu. Hvað viðmælandanum „Axel“ viðvíkur slapp hann með skrekkinn. Hann gekkst undir meðferð sem fólst í mikilli B-vítamíngjöf í sprautuformi og eftir hálft ár í hjólastól fór hann að geta gengið við hækjur. Í framhaldinu fór hann að geta gengið og skokkað og nú æfir hann knattspyrnu á nýjan leik.
Í Danmörku hefur 18 ára aldurstakmark nú verið sett á kaup köfnunarefnisoxíðs í verslunum og sænsk heilbrigðisyfirvöld hafa óskað eftir því að hætt verði að selja gasið í stærstu umbúðunum. Jacobsen prófessor vill fara báðar leiðirnar, koma á aldurstakmarki og hætta sölu á gasinu í stórum kútum.
„Allir vita að stóru gaskútarnir sem eru tvö til sex kílógrömm eru notaðir í vímuskyni,“ segir prófessorinn og Hersi hjá RIO tekur undir það með honum, hann mælir með aldurstakmarki auk þess að varan verði ekki höfð sýnileg í verslunum lengur.