Vísindamenn í gíslingu á Papúa Nýju-Gíneu

James Marape, forsætisráðherra Papúa Nýju-Gíneu.
James Marape, forsætisráðherra Papúa Nýju-Gíneu. AFP/Andrew Kutan

Nokkrir vísindamenn hafa verið teknir í gíslingu á eyjunni Papúa Nýju-Gíneu í Kyrrahafi.

BBC greinir frá því að hópurinn hafi verið að rannsaka afskekkta staði á hálendi eyjunnar er vopnaðir menn tók fólkið í gíslingu. Mennirnir krefjast nú lausnargjalds. 

James Marape, forsætisráðherra Papúa Nýju-Gíneu, sagði að yfirvöld væru í sambandi við mannræningjanna og að vonast væri til að gíslarnir yrðu látnir lausir heilir á húfi. 

Fjölmennur hópur var upphaflega tekinn til fanga en nokkrir leiðsögumenn frá svæðinu hafa verið látnir lausir. Líklegt þykir að fjórir eða fimm séu nú í haldi. Þar á meðal er fornleifafræðingur sem starfar við ástralskan háskóla, ásamt fræðimönnum og nemendum frá Papúa Nýju-Gíneu. 

Marape sagði blaðamönnum að yfirvöld hafi heyrt í fornleifafræðingnum sem staðfesti að hópurinn væri á lífi. 

Forsætisráðherrann sagðist bjartsýnn á að vísindamönnunum yrði sleppt úr haldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert