40 milljarða króna lestir sem passa ekki í göng

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP/Josep Lago

Tveir yfirmenn spænskra samgöngumála hafa sagt af sér vegna pöntunar á lestum sem passa ekki í göng sem eru á Norður-Spáni. Pöntunin kostaði um 260 milljónir punda, eða um 40 milljarða íslenskra króna. 

BBC greinir frá þessu en lestirnar passa ekki í göng í héruðunum Asturias og Cantabria. 

Isaías Tábos, forstjóri Renfe sem rekur lestarkerfi Spánar, og Isabel Pardo de Vera samgönguráðherra hafa sagt af sér vegna málsins. 

Málið uppgötvaðist í byrjun mánaðarins og segja spænsk stjórnvöld að mistökin hafi uppgötvast nógu snemma til þess að koma í veg fyrir mikið fjárhagslegt tap. Cantabria-héraðið hefur þó krafist skaðabóta. 

Lestunum seinkar um tvö ár

Renfe pantaði lestirnar árið 2020. Ári síðar uppgötvaði framleiðandinn CAF að mælingarnar sem fyrirtækið fékk stæðust ekki og hættu því framleiðslu. 

Lestarkerfið á Norður-Spáni var byggt á 19. öld og því eru þar göng sem standast ekki staðla nútímajarðganga. 

Mistökin þýða að lestirnar verða ekki tilbúnar fyrr en árið 2026, tveimur árum síðar en áætlað var að þær yrðu teknar í notkun.

Í byrjun mánaðarins var yfirmönnum hjá Renfe og Adif, rekstraraðila lestarkerfisins, sagt upp vegna klúðursins en málið er nú í rannsókn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka